Rakaskemmdir í íbúðarhúsum

Vegna nýlegrar fréttar á mbl.is (Fleiri læknar með einkenni) langar mig til að skrifa smá pistil um rakaskemmdir og myglusveppi í híbýlum. Ég verð að segja að eftir allt sem ég hef kynnt mér um áhrif myglusveppaeiturs á heilsufar er ég ekki hissa á að læknarnir finni fyrir einkennum á heilsu sinni þegar rakaskemmdir eru í húsnæðinu sem þeir vinna. Síþreyta, astmi, húðexem, þrálátar (krónískar) eyrnabólgur og kvef, einbeitingaskortur, minnistap, þunglyndi, þrálátir höfuðverkir, verkir í liðum (gigt), hjartsláttartruflanir, sjóntruflanir (lesblinda?) og fleira og fleira.

 

Ég velti því fyrir mér hvaða einkenni þeir hafa fundið vegna þess að ekki er minnst á það í þessari frétt. En möguleg einkenni eru mörg þegar kemur að myglusveppum í húsum.

 

Myglusveppir myndast í húsum ef raki eða leki nær að myndast í lengri tíma en 2 daga. Þeir finnast mjög oft á baðherbergjum og í þvottarhúsum, en einnig er algengt að þeir finnist á bakvið flísar, undir gólfefnum eða inni í veggjum þar sem raki hefur myndast. Þannig eru þeir ekki alltaf sýnilegir, en gefa samt sem áður frá sér hættuleg eiturefni sem kallast á ensku mycotoxins. Myglusveppaeitur, eða mycotoxins er bráðeitrað, ósýnilegt efni sem fólk andar að sér og getur gríðarlega alvarlegar afleiðingar á heilsufar fólks. Þótt margir læknar (á Íslandi) þekki það ekki og þvertaki fyrir að svo geti verið (aðallega vegna vanþekkingar – þetta er ekki innifalið í læknanáminu), þá hafa ýmsar rannsóknir verið gerðar, sem benda óyggjandi til þess að þegar raki myndast í húsum geti það haft mjög alvarlegar afleiðingar á heilsu fólks. Einnig eru til rannsóknir sem sýna fram á að sveppaeitrun af þessu tagi getur leitt dýr til dauða eða valdið þeim heilmiklum heilsufarsvandamálum. Hægt er að finna fræðigreinar og rannsóknir þessu tengt víða á internetinu ef fólk vill kynna sér málið. Góð leitarorð eru mycotoxins, mold, mould, health effects, sick building syndrome eða eitthvað slíkt.

 

Vonandi verður þetta til þess að í það minnsta þessir ákveðnu læknar opni augun fyrir þessum heilsufarsvanda og kynna sér málið gaumgæfilega.

 

Í raun er það algerlega með ólíkindum að þetta sé svona ótrúlega óþekkt hjá fagaðilum á Íslandi, bæði bygginar- og umsjónaraðilum húsa, sem og hjá heilbrigðisstéttunum. Víðast hvar í Skandínavíu þykir það að fá fagaðila til að taka loftsýni innanhúss vegna gruns um sveppaeitrun helst líkjast því að fá pípara eða rafvirkja, eða annan iðnaðarmann sem annast ákveðið svið innan hússins, til að laga það sem að er. Vissulega er hægt að taka sýni til að athuga þetta. Loftsýni eru tekin inni í húsum og svo borin saman við loftsýni utanhúss til að sjá hvort meiri sveppavöxtur er innanhúss en utan. Eins er algerlega nauðsynlegt að tegundargreina sýnin á rannsóknarstofu til að átta sig á hvort um hættulegustu og skaðlegustu sveppategundirnar sé að ræða.

 

Á Íslandi er nánast ekki hægt að fá neinn almennilegan fagaðila til að mæla slíkt, að mér vitandi, nema þá Hús og heilsu eða Náttúrufræðistofnun Íslands. En ef fólk hringir í einhvern frá Umhverfisstofnun, Umhverfissviði Reykjavíkurborgar eða Heilbrigðiseftirlitinu, þá er má búast við að svörin verði ekki gefin af upplýstri þekkingu. Svo mikið veit ég af reynslu minni. Umhverfissvið Reykjavíkurborgar gefur sig út fyrir að geta tekið sýni í húsi, en svo taka þeir ekki sýni utanhúss til að bera það saman við vöxt innanhúss. Eins vantar algerlega tegundargreiningu í rannsóknir þeirra, og því er ómögulegt að segja til um, samkvæmt þeirra sýnum, hvort um hættulegustu tegundirnar er að ræða eður ei.

 

Líffræðinemar á Íslandi læra ekki nema mjög takmarkað um sveppafræði, sem er þó stór grein innan líffræðinnar, vegna þess að það sárvantar sérfræðing til að kenna um það. Það tjáði mér kennari í líffræði innan Háskóla Íslands. Eins læra læknanemar ekkert um þetta og koma því af fjöllum þegar það er nefnt, sem er kannski ekki skrítið því það er mikil vinna að fylgjast náið með öllum nýjustu rannsóknunum á sviði lækna- og lífvísinda. Vonandi verður einhver þekkingarvakning á næstu árum hvað þetta varðar innan lækna- og heilbrigðisstéttarinnar.

 

Hér má lesa um hvernig áhrif myglusveppaeitur getur haft á heilsuna:

 

www.husogheilsa.is

 

http://www.ni.is/grodur/Flora/Sveppir/innanhusssveppir/

 

www.mold-help.org

 

www.mold-survivor.com

 

http://www.mold-survivor.com/submenu1.html

 

Þeir sem þekkja fleiri en eitt þrálátt einkenni á heilsufari sínu sem nefnt er að ofan, eða á þessum síðum, ættu að kynna sér mjög vel hvað hægt er að gera til að ná aftur bættri heilsu. Lesið ykkur líka til um lyfið CSM (Cholestyramine) eða Questran, sem hefur verið sýnt fram á að hjálpi fólki að hreinsa út sveppaeitur úr líkamanum, ef það á erfitt með að hreinsa sig sjálft eftir að það flytur út úr slíku umhverfi.

 

Vonandi hjálpa þessi skrif í það minnsta einhverjum sem hefur orðið fyrir slíkum áhrifum og vill kynna sér málið og leita sér hjálpar.

Grein af eggin.is. (28. maí 2008)
Höfundur: Andrea Jóhanna Ólafsdóttir