Gallað tryggingakerfi gagnvart myglusvepp ??

Frétt Austurgluggans. 
pallbjorgvin_bjorni_sbs_myglusveppir.jpg

Óljóst er hver beri kostnaðinn við endurbætur á húsum sem byggð voru á ÍAV á Reyðarfirði og Egilsstöðum fyrir nokkrum árum þar sem greinst hefur myglusveppur. Forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs segir regluverkið ekki búið undir hamfarir sem þessar.
„Mín skoðun er að regluverkið hérlendis sé ekkert mjög vel undir það búið að takast á við svona myglufaraldur. Þetta er ekkert: ekki náttúruhamfarir, ekki slys. Því ná engar tryggingar yfir þetta,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs á íbúafundi um áhrif mygluskemmda í íbúðarhúsnæði á heilsu fólks á Egilsstöðum á fimmtudagskvöld.
„Það verður að endurskoða lögin. Eðlislega er þetta ekkert öðruvísi en náttúruhamfarir og við þessu á að vera til öryggisnet. Akkúrat núna þurfum við einstakt úrræði en það er erfitt að fá áheyrn þar sem hvergi er til peningur.“
Enginn ágreiningur virðist uppi um hvað þurfi að gera. Spurningin er hver beri ábyrgðina og eigi að borga. „Við bendum á að það verði að klára viðgerðirnar og gera svo út um lagalegu glímuna. Það er ekki hægt að láta heilt samfélag bíða eftir að hún klárist,“ sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, lagði áherslu á að sveitarfélögin stæðu saman í hagsmunagæslu fyrir sína íbúa. „Við viljum styðja við okkar fólk og miðla upplýsingum á milli.“