Myglusveppur í 50 húsum

Vitlaust efni var valið í þök á um fimmtíu húsum á Egilsstöðum og Reyðarfirði sem veldur því að myglusveppur grasserar þar. Ekki er hægt að komast fyrir vandann nema með því að rífa þökin af.

Í Melahverfinu á Reyðarfirði skoðaði Þorsteinn Erlingsson, húsasmíðameistari upp í þök á nokkrum húsum í hverfinu í leit að myglusveppi. Það er ekki einfalt verk, taka þarf niður ljós og rífa niður spýtur úr lofti. Þorsteinn sagðist sjá töluverða myglu í birkikrossviðnum en ekki í sperrunum.

Niðurstöðurnar koma íbúum hússins ekki á óvart. Þeir hafa þegar þurft að gera ráðstafanir innandyra. Páll Bragason segir að þurft hafi að rýma herbergið. Ekki hafi verið hægt að sofa þar fyrir ólofti.

Í næsta húsi er ástandið enn verra. Staðan er raunar sú að þök um 50 húsa á Reyðarfirði og Egilsstöðum eru sýkt af myglusveppi. Það er ekki vegna lélegs frágangs, heldur var vitlaust efni notað í þökin, svokallaður birkikrossviður.

Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur hjá ÍAV, segir að ef notaður sé birkikrossviður í þök, sé það eins og að bjóða fyllibyttum í partí. Það safnist saman allar myglur staðarins og setjist þar að.

Menn hafa síðustu vikur reynt að finna lausn á vandanum. Ríkharður segir að gerð hafi verið tilraun, samkvæmt tillögu frá verkfræðistofunni Verkís, að hreinsa þetta innan frá. Það hafi mistekist. Sýni sem send hafi verið í rannsókn sýndu að ekki hafi tekist að drepa sveppinn. Þótt það hefði tekist hefðu veikleikarnir verið enn, vitlaus krossviður og vitlaus uppbygging þannig að þetta hefði bara myglað aftur.
Og því þarf að taka þökin af, fjarlægja sýkta krossviðin og setja þökin á aftur. Slík framkvæmd er dýr. Kostnaður talinn nema hundruðum milljóna.

Það var Arkís arkitektastofa og Mannvit verkfræðistofa sem hönnuðu húsin. Einingar í þau voru framleidd af BYKO í Lettlandi en ÍAV setti þau saman. Þessi fyrirtæki fara nú yfir stöðuna ásamt tryggingafélögum sínum. Ríkharður segir verið sé að reyna að ýta málinu þannig áfram að íbúar beri engan skaða af. Vonast sé til að hægt verði að leysa málið þannig.